Bálfarafélag Íslands

Hið fyrsta.

Starfrækt frá 1934-1964

Saga Bálfarafélags Íslands 1934-1964

Bálfarafélag Íslands var stofnað þann 6.febrúar 1934 að frumkvæði Sveins Björnssonar, fyrsta forseta íslenska lýðveldisins (1944-1952) og Dr. Gunnlaugs Claessens, læknis.

Sveinn var helsti hvatamaður þess að lög um líkbrennslu voru samþykkt á Alþingi árið 1915, en Bálfarafélagið var ekki stofnað fyrr en um tveimur áratugum síðar.

Í stjórn félagsins voru alla tíð þeir Dr. Gunnlaugur Claessen, læknir og formaður félagsins, Benedikt Gröndal, verkfræðingur, Gunnar Einarsson, prentsmiðjustjóri Ísafoldarprenstmiðju, Ágúst Jósefsson, prentari og heilbrigðisfulltrúi og Björn Ólafsson, stórkaupmaður og síðar ráðherra.

Tilgangur félagsins var að:

Mynd úr fundargerðabók Bálfarafélags Íslands 1934
Tilgangur félagsins

Útbreiða þekkingu um líkbrennslumál

Vinna að því að reistar verði bálstofur í Reykjavík og víðar á landinu

Koma upp tryggingadeild, þannig að fólk geti gegn iðgjöldum tryggt sér greiðslu bálfararkostnaðar, að þeim látnum

Vinna að því að gera bálfarirnar sem ódýrastar

Veita aðstoð og leiðbeiningar um bálfarir og bálstofur

Frumkvöðlar í þrjátíu ár

Félagið starfaði í þrjátíu ár og kom fyrstu og einu bálstofu landsins á laggirnar, Bálstofunni í Fossvogi. Stjórnarmenn sýndu mikinn frumkvöðlahugsunarhátt við undirbúning bálstofunnar og stóðu í miklum samningaviðræðum við Reykjavíkurborg um lóð fyrir bálstofuna. Eftir töluverðar samningaviðræður náðist samkomulag við kirkjuna um að húsakynni Fossvogskirkju, sem þá var í byggingu, myndu einnig hýsa bálstofu.

Fjármagni fyrir byggingu bálstofunnar, tveimur líkbrennsluofnum og öllum meðfylgjandi tækjabúnaði var safnað með samskotum frá almenningi og fyrirtækjum en eins veittu ríki og borg styrki til Bálfarafélagsins.

Þann 31.júlí árið 1948 var fyrsta líkbrennslan á Íslandi framkvæmd þegar jarðneskar leifar Dr. Gunnlaugs Claessens voru brenndar. 

Bálstofan í Fossvogi er nú rekin af Kirkjugörðum Reykjavíkurpófastsdæmis og þjónar enn sem eina bálstofa landsins.

Bálfarafélag Íslands var lagt niður árið 1964 af tveimur ástæðum:

„1) Félagið hefir engan fjárhagslegan grundvöll til að byggja á, sökum þess að fyrir mörgum árum var sú ályktun gerð, að ekki væri hægt að innheimta árstillag og var því horfið að því ráði að leggja lágt æfigjald á félagsmenn, sem á engan hátt getur staðið undir félagsstarfsemi.

2) Þótt líkbrennsla hafi hér ýmsa áhangendur, er málið þannig vaxið, að erfitt er að halda uppi áróðri að staðaldri fyrir líkbrennslu í litlu þjóðfélagi, svo að gagni kæmi, enda getur slíkur enhliða áróður á opinberum vettvangi oft reynst neikvæður ef mikið er gert.”

Á síðustu blaðsíðu fundagerðabókar Bálfarafélagsins fer stjórnin þess á leit við Þjóðskjalasafn Íslands að það varðveiti fundargerðabókina þar sem ákveðið hafi verið að leggja félagið niður.

Enn fremur er tekið fram að: „Verði síðar stofnað félag í því skyni að vinna að framgangi bálfara hér á landi, er Þjóðskjalasafninu í sjálfsvald sett, hvort það afhendi slíku félagi fundabókina“

Bálfarafélag Íslands, hið nýja, hefur fengið fundargerðabókina afhenta frá Þjóðskjalasafn Íslands sökum líkinda félaganna og til að byggja á þeim heimildum sem til eru við stofnun nýrrar bálstofu.

Heimildir þessar eru fengnar af vef Þjóðskjalasafns Íslands og úr fundargerðabók Bálfarafélags Íslands sem varðveitt er á Þjóðskjalasafninu.

Tilgangur Bálfarafélags Íslands (1934-1964) rímar skemmtilega við tilgang Trés lífsins og því fannst mér mikilvægt að endurvekja félagið. Bálfarafélag Íslands hið nýja mun því styðja stofnun óháðrar bálstofu Trés lífsins sem býður nýja, umhverfisvæna valkosti í takt við fjölbreytta samfélagsgerð og mun einnig heiðra sögu frumkvöðlanna sem ruddu brautina fyrir bálfarir á Íslandi.
Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir
Stofnandi Trés lífsins
Mér finnst mikilvægt að hér á landi sér starfrækt bálstofa sem er óháð trúfélögum þannig að við upplifum okkur öll velkomin þegar við fylgjum ástvini síðasta spölinn.
Halla Kolbeinsdóttir
Í stjórn Bálfarafélags Íslands