Bálfarafélag Íslands

Stofnað 6.júlí 2021

Tilgangi Bálfarafélags Íslands verður náð með því að:

Vekja athygli almennings á núverandi fyrirkomulagi bálfara á Íslandi.

Vekja athygli almennings á nýjum möguleikum er varða bálfarir og meðferð ösku.

Berjast fyrir auknu valfrelsi almennings er varða lífslok og veita fræðslu um ólíka möguleika.

Taka þátt í alþjóðlegu samstarfi bálfarastofa.

Varðveita sögu líkbrennslu á Íslandi og þeirra frumkvöðla sem börðust fyrir bálförum.

Aðstoða við að afla fjár til byggingar bálstofu Tré lífsins í Rjúpnadal í Garðabæ.

Bálfarir á Íslandi og Bálfarafélag Íslands

Tilgangur Bálfarafélags Íslands er að opna umræðuna um fyrirkomulag bálfara á Íslandi og styðja við stofnun sjálfstæðrar bálstofu sem er óháð öllum trúar- og lífsskoðunarfélögum en öllum opin.

Bálförum hefur farið ört fjölgandi á undanförnum árum og eru þær nálægt 1.000 á ári, en árið 2020 létust 2.301  einstaklingar á Íslandi.

Bálfarir á Íslandi eru framkvæmdar í bálstofunni í Fossvogi í ofni sem hefur verið í rekstri frá árinu 1948 eða í 73 ár. Mengunarvörnum er ábótavant því enginn hreinsibúnaður er á ofninum og er hann orðinn barn síns tíma. 

Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma reka bálstofuna í Fossvogi og fá til þess fé af fjárlögum sem úthlutað er af Kirkjugarðaráði. Auk bálstofunnar er þar að finna Fossvogskirkju, kapellu, bænhús, líkhús, skrifstofur og Fossvogskirkjugarð. 

Bálfarafélag Íslands vill halda á lofti þeim hugsunarhætti frumkvöðla um bálfarir á Íslandi, sem komu fyrstu bálstofunni á laggirnar, að gera útfarir ódýrari en nú tíðkast. 

Einnig þykir okkur mikilvægt að hugað sé að umhverfinu í hvívetna og því er þörf á nýjum ofni með fullkomnum hreinsibúnaði og öflugum mengunarvörnum. 

Samfélag okkar hefur tekið miklum breytingum frá því sem var á fyrri hluta tuttugustu aldar og samfélagsgerðin orðin fjölbreyttari. 

Okkur þykir eðlilegt að valfrelsi og lífsskoðanir fólks séu virtar í lífi og við lífslok og þykir mikilvægt að í boði séu fleiri valmöguleikar en eru í dag. 

Þessvegna styður Bálfarafélag Íslands við stofnun nýrrar, óháðrar og umhverfisvænnar bálstofu Trés lífsins- bálstofu og Minningagarða ses. 

Tré lífsins er sjálfseignastofnun sem stýrt er af stjórn og starfandi stjórnarformanni, Sigríði Bylgju.

Tré lífsins hefur fengið úthlutaðri lóð í Rjúpnadal í Garðabæ þar sem til stendur að reisa bálstofu og fyrsta Minningagarðinn á Íslandi. Í höfuðstöðvum Trés lífsins verða fjölnota salarkynni sem bjóða upp á fallegar athafnir, allt frá skírn til ferminga, hjónavígslna og hinstu kveðjustunda.

Vefsíða Trés lífsins- bálstofu og Minningagarða ses.

 

Stjórn Bálfarafélags Íslands

Forman: Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir.

Meðstjórnendur: Halla Kolbeinsdóttir, Sigurjón Már Guðmannsson, Lilja Baldursdóttir og Berglind Sigurjónsdóttir.